RAGNA HERMANNSDÓTTIR - NETSÝNING
Listakonan Ragna Hermannsdóttir fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal 29. mars 1924. Ung nam hún garðyrkjufræði í Hveragerði og síðar ljósmyndun á árunum 1972-1975. Hún starfaði við sína iðn þar til hún settist aftur á skólabekk um miðjan aldur og varð stúdent frá öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1980 og nokkrum árum síðar, þá 55 ára að aldri, hóf hún listnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Leið hennar lá síðar til Hollands þar sem hún stundaði framhaldsnám í Rijks-Akademie í Amsterdam og síðar í Rochester í New York. Þegar heim var komið hélt hún áfram að bæta við menntun sína og hóf heimspekinám við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA námi árið 1997, þá 73 ára að aldri. Þess má geta að Páll Skúlason var leiðbeinandi hennar í lokaverkefninu sem fjallaði um heimskuna. Ragna lést árið 2011, þá 87 ára að aldri.
Ragna var fjölhæf listakona og vann í marga og ólíka miðla. Hún var leitandi og í verkum hennar má greina bæði lærdómsþrá en líka þroska og jafnvel eins og óþreyjufulla löngun til að miðla og koma boðskap á framfæri. Á tímabilinu 1976-2003 hélt Ragna 22 einkasýningar á Íslandi og í Hollandi auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga.
Verkin 28 á netsýningunni, sem eru hluti af einskonar mandölum listakonunnar, eru valin úr rausnarlegri dánargjöf Rögnu og eru hluti safneignar Myndlistarsafns Þingeyinga. Sköpunin er bæði dularfull og óræð en líka hlý og þægileg eins og listakonunni var jafnframt lýst, sem saman framkallar sterk heildaráhrif.
Með kveðju um gleðilegt nýtt ár.
Sýninguna er hægt að skoða hér:
Ragna Hermannsdóttir - Mantra