Safnahúsið

Safnahúsið á Húsavík er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) og hýsir ólíkar safneignir og menningarminjar Þingeyinga. Þar er að finna tvær fastasýningar, annars vegar áhugaverðu byggðasýninguna “Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum”, sem unnin er úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga og með munum úr Náttúrugripasafni Þingeyinga. Sýningin segir frá samtali manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu frá 1850 til 1950. Hin fastasýningin er unnin úr safnkosti Sjóminjasafns Þingeyinga og segir/sýnir frá sjósókn á Skjálfanda og sjóminjum Þingeyinga. Héraðsskjalasafn Þingeyinga er einnig í húsinu, auk safneigna Ljósmyndasafns Þingeyinga og Myndlistarsafns Þingeyinga. Í Safnahúsinu eru jafnframt tvö rými sem eru nýtt undir tímabundnar myndlistar- og sögusýningar en myndlistarsalnum á 3. hæð opna reglulega allt árið um kring sýningar á myndlist í hæsta gæðaflokki. Í húsinu er einnig að finna skrifstofur MMÞ og munageymslur. Reglulega eru þar haldnir ýmsir menningartengdir viðburðir á borð við tónleika, námskeið og fræðsluerindi. Að lokum er bókasafn Norðurþings staðsett á jarðhæð hússins.

                                                                                           

 

Mannlíf og náttúra - 100 ár í Þingeyjarsýslum

“Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum” er önnur fastasýningin og er staðsett á miðhæð hússins. Í henni tvinnast saman manngerðir munir úr byggðasafni Þingeyinga við náttúruminjar þannig úr verður skemmtileg heild sem leggur mikla áherslu á náin samskipti manns og náttúru. Sýningin tekur fyrir tímabilið 1850-1950 þegar íslenska bændasamfélagið fór að líða undir lok og nýjar tækninýjungar hófu innreið sína með þeim afleiðingum að fólk fór að fjarlægjast náttúruna í sínu daglega lífi. Þetta er í raun síðasta tímabilið sem fólk þurfti að reiða sig á samspilið við náttúruna til þess að hafa í sig og á. Sýningunni er skipt í steinaríki, dýraríki og jurtaríki og leiða 1. persónu frásagnir heimafólks gestinn í gegnum sýninguna.


Innan “Mannlífs og náttúru” má einnig sjá litla sýningu um sögu Samvinnuhreyfingarinnar þar sem hægt er að kynna sér ríkulega sögu kaupfélaga. Fyrsta kaupfélagið á Íslandi var Kaupfélag Þingeyinga, stofnað árið 1882 á bænum Þverá í Laxárdal. Eftirlíkingu af stofunni þar sem félagið var stofnað má sjá á sýningunni.

Myndir frá sýningunni: Mannlíf og náttúra

Sjóminjasafnið

Hin fastasýning Safnahússins er Sjóminjasýning. Hún gefur glögga mynd af þróun útgerðar og bátasmíði í Þingeyjarsýslum, allt frá árabátaöldinni fram til vélbátaútgerðar. Þar eru Húsvískum bátasmiðum gerð góð skil og fjallað er um mikilvægi hafsins fyrir þróun byggðarinnar á svæðinu. Margir bátar eru á sýningunni en sá stærsti er Hrafninn, teinæringur sem Norðmenn gáfu til Húsavíkur árið 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Einnig má sjá fjölda veiðarfæra, tækja og tóla sem notuð voru við fiskveiðar, sel- og hákarlaveiði, sjófuglanytjar, fiskverkun og bátasmíði.

Myndir frá Sjóminjasafninu: Sjóminjasafnið

Myndlistarsafn Þingeyinga

Safneign Myndlistarsafns Þingeyingatelur tæplega nítján hundruð verk og hefur því stækkað gríðarlega frá stofnun þess þann 1. apríl 1978, en stofngjöf safnsins samanstóð af sjötíu og sjö verkum eftir 30 listamenn. Frumkvæði að stofnun þess átti Sigurður P. Björnsson sem lagði áherslu á söfnun málverka til stofngjafar og sérstaklega eftir Þingeyska málara. Stofngjöfin innihélt því aðallega verk eftir listamenn sem tengjast Þingeyjarsýslunum tveimur.

Myndlistarsafn Þingeyinga hóf sýningarhald árið 1980 í Safnahúsinu á Húsavík sem vígt var sama ár. Er safnið rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) og safneignin að mestu leyti varðveitt í varðveislurými myndlistar á 3. hæð Safnahússins, auk þess sem brot af verkum er í útláni hjá þeim sveitarfélögum sem standa að rekstri safnsins og stofnunum innan þeirra vébanda. Í Safnahúsinu er einnig Málverkasalurinn þar sem settar eru upp fjölbreyttar sýningar á ári hverju, hvar aðal áhersla er á myndlist.

Einn mikilvægasti hluti stofngjafarinnar eru 27 verk eftir myndlistarmanninn Valtý Pétursson (1919-1988), sem fæddur var og uppalinn á Grenivík í Suður-Þingeyjarsýslu, og færði hann sjálfur safninu verk sín að gjöf. Önnur mikilvæg myndlistarverk sem ber að nefna í stofngjöf safnsins, af öðrum ólöstuðum, eru þrjú málverk eftir Arngrím málara (Arngrímur Gíslason 1829-1927) sem einnig var Þingeyingur, fæddur á Skörðum í Reykjahverfi. Eru verk Arngríms merkilegar heimildir um sveitamenningu hans samtíma og er vanalegra að finna þau í menningarminjasafni (flest verka hans sem ekki eru í einkaeigu eru geymd á Þjóðminjasafni Íslands) heldur en listasafni, þótt merkileg séu þau einnig í myndlistarsögulegu samhengi okkar Íslendinga.

Hafa safninu reglulega borist höfðinglegar gjafir frá stofnun þess, bæði frá heimamönnum sem utanaðkomandi, en má í því samhengi nefna móttöku tveggja einstakra verka eftir Jón Engilberts árið 2022, sem bárust úr myndasafni Íslandsbanka. Auk þess hafa listamenn, innlendir sem erlendir, reglulega fært safninu verk sín að gjöf og einnig hefur bæst við safneignina með innkeyptum verkum í áranna rás. Öll verk í safneign Myndlistarsafns Þingeyinga eru skráð hjá MMÞ.

Fjölbreytni safneignar

Fjölbreytileg myndlistarverk er að finna í safneign Myndlistarsafns Þingeyinga. Meirihluti þeirra er eftir innlenda listamenn og eru margir þeirra ættaðir úr Þingeyjarsýslum. Eins og áður var nefnt eru t.d. í safninu myndir eftir Arngrím málara, nokkur verk eru eftir Sveins Þórarinsson úr Kílakoti í Kelduhverfi og einnig konu hans Karen Agnete Þórarinsson. Þar er að finna verk eftir Þingeyinginn Hring Jóhannesson frá Haga, sem og son hans Þorra Hringsson. Safneignin telur mörg verk eftir heimamennina Sigurð Hallmarsson, Ingvar Þorvaldsson og Kára Sigurðsson. Nokkuð áberandi er þáttur textíllistar í safneigninni og má þar nefna verk eftir Þingeyingana Oddnýju E. Magnúsdóttur og Hólmfríði Bjartmarsdóttir. Má þá nefna að finna má í safnkostinum margar mannamyndir úr héraði sem unnar eru m.a. af Bolla Gústafssyni og séra Sigurði Guðmundssyni.

Ísafneigninni er líka að finna fjölda verka listamanna sem ættaðir eru af öðrum svæðum landsins og má þar nefna mörg þekkt nöfn í íslenskri myndlistarsögu s.s. Tryggva Ólafsson, Jóhannes S. Kjarval, Gunnlaug Blöndal, Barböru Árnason, Jón Laxdal, Hildi Hákonardóttur og Jón Engilberts, ásamt fjölda annarra. Af erlendum listamönnum má nefna glæsileg verk eftir meðal annars hinn breska Martin Cox og íslensk-kanadísku Sheilu Carlson.

List úr héraði

Ragna Hermannsdóttir

Árið 2008 færði Jón Aðalsteinn Hermannsson frá Hlíðskógum í Bárðardal, safninu að gjöf verk eftir systur sína, Rögnu Hermannsdóttur sem hún hafði ánafnað safninu. Um er að ræða nokkur hundruð myndlistarverk, af ýmsum toga; ljósmyndir, málverk, silkiprent, bókverk og tréristur. Ragna var fædd á Hlíðskógum í Bárðardal árið 1924 og lauk framhaldsnámi í myndlist. Hún var virk á sviði myndlistarogþví til marks má nefna eftirtektarverðar sýningar hennar á Kjarvalsstöðum1988 og í Suðsuðvestur 2008. Myndlistarsafn Þingeyinga hélt yfirlitssýningu á verkum úr höfðinglegri gjöf Rögnuárið 2011, sem er nokkuð frábrugðin öðrum gjöfum sem safninu hafa verið færðar, þar sem um er að ræða stóran hluta af ævistarfi viðkomandi listamanns. Verkin eru talin í hundruðum og sum hver eru heimild um listrænt ferli listamannsins, frekar en að vera verk sem tilbúin eru eða ætluð til sýningar.

Jóhann Björnsson

Annar listamaður sem á viðlíka hlut í safneign MyndlistarsafnsÞingeyingaer heimamaðurinn Jóhann Björnsson. Í safneigninni eru um hundrað og fimmtíu verk eftir hann. Jóhann var fæddur á Húsavík 11. janúar 1904. Hann var teiknikennari og myndskurðarmeistari, bjó á Húsavík fram til 1953 og hélt tengslum við staðinn eftir það. Verkin eftir Jóhann spanna stærstan hluta starfsævi hans og eins og í tilfelli Rögnu er bæði um að ræða verk sem tilbúin eru til sýninga en einnig skissur og vinnuteikningar sem hafa annarskonar varðveislugildi. Árið 1993 fékk safnið að gjöf nokkurn fjölda verka eftir Jóhann í formi húsamynda frá Húsavík og af sveitabæjum nærliggjandi sveita. Síðar eignast safnið margskonar önnur verk eftir hann en þau voru einnig í stofngjöf safnsins.

Í tilfelli þessara tveggja listamanna má segja að safnið hafi yfir að ráða nokkuð heillegu yfirliti yfir feril þeirra og á þar að auki mikið af verkum sem ekki hafa verið sýnd og eru ekki endilega þess eðlis að vera sýningarefni. Efni sem þetta hefur að einhverju leiti annað varðveislugildi heldur en fullbúin verk og getur bæði gefið safninu möguleika en einnig verið áskorun fyrir það að eiga slíkt efni í safneign.Unnið upp úr texta Jóhannesar Dagsson um Myndlistarsafn Þingeyinga í bókinni Myndlistasöfn á Íslandi.

Myndir af listaverkum: Myndlistarsafn Þingeyinga

Náttúrugripasafnið

Náttúrugripasafn Þingeyinga var stofnað árið 1966 og hefur að geyma stórt safn fugla, safn villtra landspendýra sem finnast í Þingeyjarsýslum, auk íslenskra húsdýra. Einnig geymir það svolítið safn sjávarspendýra, aðallega uppstoppaða fiska, en þar eru líka þeir selir sem sjást við Íslandsstrendur, krabbasafn og athyglisvert steinasafn.

Tvö einkasöfn tilheyra jafnframt Náttúrugripasafninu og er annars vegar um að ræða skeljasafn Jóhannesar Björnssonar (1907-1998) bónda í Ytri-Tungu í Tjörnesi, sem inniheldur íslensk skeldýr, einstakt safn sælindýra, safn sæsnigla sem telur 179 tegundir sem fundist hafa við landið (auk 93 tegunda úr Norður-Atlantshafi) og 26 tegundir landsnigla. Auk þess er þar að finna margar tegundir vatnasnigla, samloka, sætanna, sænökkva, hrúðurkarla og armfætla. Hitt einkasafnið er jurtasafn grasafræðingsins og bóndans Helga Jónassonar (1887-1972) frá Gvendarstöðum í Köldukinn, sem var áður í eigu Náttúrugripasafnsins á Akureyri, en var fært Náttúrugripasafni Þingeyinga að gjöf við opnun Safnahússins á Húsavík þ. 24. maí 1980. Plöntusafnið saman stendur af um 300 tegundum jurta sem Helgi safnaði um árabil og eru flestar úr Þingeyjarsýslum.

Að lokum er þekktasti gripur safnsins uppstoppaður hvítabjörn - Grímseyjarbjörninn - sem felldur var í Grímsey veturinn 1969 og hefur mikið aðdráttarafl. Hann er hluti af sýningunni „Mannlíf og náttúra“, byggðasýningu á 2. hæð Safnahússins, en þar er að finna ýmsa muni úr Náttúrugripasafninu í bland við menningarminjar, en engin sérsýning er á safninu með eingöngu náttúruminjum. Safneignin sem ekki er sjáanleg er varðveitt í varðveislurými Safnahússins og býður þess að vera sýnd gestum, til fróðleiks og yndisauka.

Jurtasafn

Við opnun Safnahússins á Húsavík þann 24. maí 1980 var tilkynnt að náttúrugripasafnið á Akureyri hygðist færa Náttúrugripasafni Þingeyinga að gjöf plöntusafn, sem saman stæði af um 300 tegundum, flestar úr Þingeyjarsýslum. Safnið var svo afhent Þingeyingum í september 1983.

Það var bóndinn og grasafræðingurinn Helgi Jónasson (f. 26. sept. 1887 - d. 13. apríl 1972) frá Gvendarstöðum í Köldukinn sem safnað hafði jurtunum um langt árabil. Hann vann einnig mikið að skógrækt auk þess að rita töluvert um gróðurrannsóknir.

Skeljasafn

Jóhannes Björnsson (1907-1998) bóndi í Ytri-Tungu á Tjörnesi var einn ötulasti safnari núlifandi íslenskra skeldýra sem við Íslendingar höfum átt og tókst honum að ná saman betra safni sælindýra en flestum öðrum. Hann greindi sjálfur dýrin til tegunda og fékk þannig gott yfirlit yfir skeldýrafánu landsins sem hann að lokum gjörþekkti. þetta safn núlifandi skeldýra gaf hann Safnahúsinu þegar það var formlega vígt.

Í safni hans eru 179 tegundir sæsnigla fundnar við landið og 93 tegundir til viðbótar úr Norður-Atlantshafi, í nágrenni landsins. þá eru 108 samlokutegundir úr sjónum umhverfis landið og þar að auki 32 tegundir úr Norður-Atlantshafi. Í riti Ingimars Óskarssonar um skeldýrafánu Íslands er nú talin 171 tegund sæsnigla við landið og 107 tegundir samlokna í sjó, en það sýnir okkur vel hversu gott safn Jóhannesar raunverulega er.

Í safninu eru einnig 26 tegundir núlifandi landsnigla og sex tegundir vatnasnigla, ásamt 13 samlokutegundum úr íslenskum vötnum. Að lokum eru þrjár tegundir sætanna og sjö tegundir sænökkva, ásamt fimm tegundum hrúðurkarla og fjórum tegundum armfætla.

Jóhannes safnaði einnig dýra- og plöntuleifum úr Tjörneslögunum þegar lítt viðraði til búskapar. Varla er á nokkurn hallað þó fullyrt sé að hann var búinn að ná saman stærra safni tegunda úr neðri hluta Tjörneslaga frá Köldukvísl í suðri til Hallbjarnarstaðaár í norðri en nokkur annar. Þetta safn hefur að geyma tegundir sem aldrei fyrr hafa fundist í lögunum og því mikilsverð viðbót við þá fánu sem þegar var þekkt. Alls voru þekktar um 35 tegundir sælindýra í þessum hluta laganna, en í safni Jóhannesar eru til viðbótar milli 15 og 20 tegundir sem ekki hafa verið nefndar þaðan áður.

Af snoðdýri, gleraugnaslöngu og manga

Snoðdýr

Snoðdýr kallast þeir refir sem eru hárlitlir og stundum hárlausir að hluta. Hárleysinu veldur smitandi sjúkdómur sem borist getur refa á milli. Snoðdýr eiga erfitt með að komast af í köldu loftslagi sökum snögga feldsins og eru þau því algengust á Suðvesturlandi þar sem loftslag er tiltölulega milt. Talið er að með hlýnandi loftslagi komi snoðdýrum til með að fjölga á Íslandi, sér í lagi þar sem snoðdýrslæður eru frjósamari en aðrar læður.

Á Náttúrugripasafni Þingeyinga er að finna uppstoppað snoðdýr, en það voru þeir Benedikt Hrólfur Jónsson og Tómas Gunnarsson sem færðu það safninu árið 2019.

Gleraugnaslanga og mangi

Í safneign Náttúrugripasafns Þingeyinga er að finna afar sérkennilegan mun, þ.e. uppstilltan bardaga gleraugnaslöngu og manga þar sem uppstoppuð dýr leika aðal hlutverk, en litlar upplýsingar eru til um uppruna munarins og er hann óskráður.

Af Gleraugnaslöngum er það að segja að þær lifa villtar í Afríku, Ástralíu og Suður-Asíu, eru baneitraðar og eru flest dauðsföll fólks á Indlandi af völdum dýra rakin til þeirra.

Mangi eða mongús er aftur á móti lítið rándýr sem lifir aðallega í Afríku, Asíu og við Karabíska hafið og lifir m.a. á slöngum. Eru sumar tegundir manga einmitt þekktar fyrir hæfileika sinn til að bana eitruðum slöngum á borð við gleraugnaslöngur.

Mangar og gleraugnaslöngur hafa því lengi eldað grátt silfur saman, en eitur slöngunnar hefur lítil áhrif á svanga manga sökum sérstaks prótíns sem sá síðarnefndi framleiðir. Án þessa eitursvopns slöngunnar er hún illa sett og talið er að mangar vinni um 75-80% af þeim bardögum sem þessar tvær tegundir heyja.

Myndir af gripum: Náttúrugripasafn Þingeyinga