Safnfræðsla

Safnahúsið býður uppá fjölbreyttar sýningar sem auðvelt er að tengja við ýmsar námsgreinar; sem snúa að sköpun, listum og handverki, vísindum, menningu, náttúru, sögu, samfélagsfræði, umhverfismálum, sem og félagslegum gildum. Umræður, áhorf og upplýsingar stuðla að frjórri hugsun nemenda allra skólastiga og getur, þegar best tekst til, víkkað sjóndeildarhring þeirra. Allir nemendur sem heimsækja sýningar Safnahússins eru hvattir til að skoða vel muni og fræðsluefni og spyrja starfsfólk þeirra spurninga sem vakna. Innihaldsrík heimsókn getur aukið við skilning nemenda á bæði fortíð og nútíð, sem aftur getur haft áhrif heimsmyndina.

Safnfræðslan getur farið fram sem almenn leiðsögn um afmarkaðar sýningar og/eða allt safnið, en gagnlegt getur verið að skoða betur ákveðna muni, verk eða hlýða á fræðslu er tengist námsefni svo heimsókn skili sér sem best. Einnig er boðið upp á að vinna afmörkuð verkefni í safninu sem tengjast safneign og/eða fræðslu og nota safneignina þannig til upplýsingagjafar og innblásturs.

Sérstaða Safnahússins eru þær fjölbreyttu sýningar og safneignir sem þar er að finna og er því hægt að fara ótal margar leiðir innan safnfræðslu. Eru kennarar hvattir til að vera í sambandi við safnkenna með hugmyndir og útfærslu þeirra. Aðstaða og pláss er gott og kennurum og nemendum er velkomið að færa kennslustundir yfir í safnið eins og við á.

Markmið safnfræðslunnar er að ýta undir frjóa og skapandi hugsun í menningartengdu umhverfi og sýna nemendunum að söfn eru lifandi og mikilvæg tenging við fortíð, nútíð og framtíð.

Bóka heimsóknHafa samband