Báður Sigurðsson fæddist á Kálfborgará í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu þann 28. maí 1872 og hefur gjarnan verið nefndur ljósmyndari Mývetninga. Bárður var sjálflærður tré- og járnsmiður og bókbindari. Hann var vinnumaður og lausamaður á sínum yngri árum en stofnaði nýbýlið Höfða við Mývatn árið 1912 og kvæntist Sigurbjörgu Sigfúsdóttur árið 1916. Bárður lærði ljósmyndun eftir danskri ljósmyndafræðibók einnig nam hann ljósmyndun hjá Bjarna K. Eyjólfssyni í þrjá mánuði veturinn 1904-1905 sem hann greiddi 100 kr. fyrir. Þá fór hann einnig til Reykjavíkur á námskeið í teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni. Blómaskeið Bárðar í ljósmyndun var á árunum 1905-1917 en talið er að hann hafi þó fengist við ljósmyndun allt til ársins 1929. Að Höfða hafi Bárður ljósmyndaaðstöðu í íbúðarhúsinu þar sem hann tók m.a. stereóskópmyndir, fjöldaframleiddi og seldi. Þessar myndir voru landslagsmyndir sem sýna þrívídd en þó ekki að öllu leiti. Þá tók hann skuggamyndir eftir plötunum sínum sem hann sýndi í vél sem hann hafði smíðað sjálfur og fjöldaframleiddi og seldi einnig ásamt því að hann ferðaðist um og sýndi myndir sínar opinberlega. Freymóður Jóhannsson málaði baktjald Bárðar.
Bárður bjó að Höfða til ársins 1930 þar sem hann stundaði búskap við hlið konu sinnar en þau eignuðust þau 8 börn. Árið 1930 fluttist fjölskyldan til Akureyrar þar sem þau bjuggu í Glerárþorpi og stundaði hann trésmíðar samhliða almennri vinnu. Bárður lést á Akureyri 21. febrúar 1937. Varðveist hafa dagbækur Bárðar frá árunum 1891-1935, samtals um 40 bækur. Í bækurnar skrifaði Bárður m.a. veðurlýsingar og ýmsar aðrar lýsingar á daglegu streði, krankleikum, rjúpna- og silungsveiði, fæðingu barna sinna ásamt því að dagbækurnar innihalda upplýsingar um ljósmyndanir og ýmiskonar reikningshald tengt því en dæmi um það má sjá í dagbók hans frá árinu 1908 þar sem hann skrásetur að hann hafi sent 70 myndir til Berlínar.