Saga safnsins

Saga safnsins

Þann 7. janúar 1958 fór fram fyrsti fundur stjórnar Héraðsskjalasafns Þingeyinga (hét þá Héraðsskjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar). Stofndagur miðast við þennan fyrsta fund því þá hófst vinna safnsins, sem haldið hefur áfram allar götur síðan – mismikið á hinum ýmsu tímabilum. Raunar voru skjalagögn tekin að berast nokkru áður en tekið var við þeim á Bókasafni Suður-Þingeyinga í húsi KÞ við Garðarsbraut.

Páll H. Jónsson, kennari á Laugum, vakti fyrstur máls á nauðsyn þess að stofna sérstakt héraðsskjalasafn. Hann ritaði Sýslunefnd Suður-Þingeyinga bréf, dags. 27. maí 1955, þar sem hann beindi þeirri tillögu til nefndarinnar að komið yrði upp héraðsskjalasafni fyrir sýsluna, í samræmi við lög um héraðsskjalasöfn , nr. 7, 12. febrúar 1947 og þágildandi reglugerð um sama efni frá 5. maí 1951. Jafnframt beindi hann því til sýslunefndarinnar hvort ekki myndi eðlilegt að hafa um stofnun slíks skjalasafns samráð við bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar. Ári síðar, eða 24. maí 1956, ítrekaði Páll H. þessa fyrirspurn til sýslunefndar. Málið var tekið fyrir á aðalfundi sýslunefndar, 29. maí 1956, en hann var sá síðasti sem Júlíus Havsteen stýrði, og þar var málið samþykkt (56. mál). Bæjarstjórn Húsvíkur samþykkti formlega 9. maí 1957 að gerast aðili að málinu og var Jóhann Skaptason, sýslumaður og bæjarfógeti, skipaður í stjórnina af hálfu Húsavíkurkaupstaðar en tveir fulltrúar sýslunefndar voru þeir Jón Gauti Pétursson, bóndi á Gautlöndum og Páll H. Jónsson, kennari á Laugum. Leitað var samvinnu við Norður-Þingeyinga en sýslunefnd þar var þá “..ekki viðbúin samvinnu um málið, að svo stöddu”.

Stjórnin hélt, eins og áður segir, sinn fyrsta fund 7. janúar 1958 og skipti með sér verkum. Jón Gauti varð formaður, Jóhann gjaldkeri og Páll H. Ritari. Safnið fékk aðstöðu í eldtraustu herbergi í aðalbyggingu Kaupfélags Þingeyinga og fyrstu menn, sem stjórn réð til vinnu við móttöku gagna, skráningu og frágang, voru Þórir Friðgeirsson en nokkru síðar Sigurður Egilsson. Stefán Pétursson, þáverandi þjóðskjalavörður, var Þingeyingur og sveitungum sínum hjálpsamur fyrstu skrefin, gaf góð ráð og útvegaði eitt og annað fyrir safnið. Á fjárlögum 1957 fékk safnið nokka fjármuni til kaupa á “filmum af skjölum í Þjóðskjalasafni”.

Héraðsskjalaverðir:

1980 – 1992 Finnur Kristjánsson
1992 – 2008 Guðni Halldórsson
2008 – 2009 Sigurjón B. Hafsteinsson
2009 – 2009 Sigrún Kristjánsdóttir
2009 – Snorri Guðjón Sigurðsson