Dagbækur Bárðar Sigurðssonar aftur í hérað

Föstudaginn 9. desember afhenti Hörður Geirsson, f.h. Minjasafnsins á Akureyri, Héraðsskjalasafni Þingeyinga dagbækur Bárðar Sigurðssonar. Dagbækurnar ná yfir tímabilið 1891 til 1935.

Bárður Sigurðsson fæddist árið 1872 að Kálfborgará í Bárðardal. Smíðar urðu snemma eitt af hans meginstörfum og hann réði sig oftast í vinnumennsku að hluta til að geta sinnt smíðum samhliða. Hann fór á milli bæja til að sinna þeim verkum eða smíðaði heima. Ljósmyndun varð hans þriðja starf árið 1906 þegar hann hafði fengið grunnleiðsögn hjá ljósmyndara í Reykjavík. Fyrstu árin eftir að hann hóf ljósmyndun voru hans blómatími í því starfi, þó að hann tæki myndir fram yfir 1920. Fertugur að aldri byggði Bárður nýbýlið Höfða í Mývatnssveit og árið 1916 kvæntist hann Sigurbjörgu Sigfúsdóttur. Þau eignuðust átta börn á 16 árum. Bárður seldi Höfða 1930 og fluttist í Glerárþorp við Akureyri. Hann lést á Akureyri 21. febrúar 1937.

Nokkrir þættir stuðla að því að skapa Bárði sérstöðu meðal íslenskra ljósmyndara. Starfstími hans er tiltölulega stuttur eða um 15 ár og því bera myndirnar sterkan svip eins tímabils. Hann myndar fyrst og fremst í Þingeyjarsýslum á sínum heimaslóðum; fólk sem hann þekkir og umhverfi sem hann lifði og hrærðist í. Enginn ljósmyndari kemst jafn nálægt kjarna íslenskrar sveitamenningar og Bárður. Hann verður fyrstur til að opna okkur sýn inn í baðstofur á mörgum bæjum.

Þó í safni Bárðar séu myndir víða að á landinu eru Þingeyjarsýslur þar í lykilhlutverki. Ljósmyndir Bárðar endurspegla veruleika sveitunga hans. Þar má sjá karla við slátt, fjölskyldur við borðhald, baðstofulíf, konur á íslenskum búningi, fólk á ferð og stórbrotnar myndir af landslagi. Áhugavert er að virða fyrir sér útlit fólks, fatnað, húsbúnað, atburði og umhverfi svo eitthvað sé nefnt. Bárður hefur fangað einstök augnablik í lífi samferðamanna sinna og nýtur þar trausts þeirra sem hann ljósmyndaði. Myndir Bárðar eru fyrir vikið raunsannar, lausar við tilgerð og ómetanlegar heimildir um íslenskt bændasamfélag. Það gefur myndum hans einstakt gildi. Segja má að enginn ljósmyndari annar hér á landi hafi komist nær íslenskri sveitamenningu.

Heimild: Ljósmyndari Mývetninga. Mannlífsmyndir Bárðar Sigurðssonar frá upphafi 20. Aldar. Þjóðminjasafn Íslands. Reykjavík 2011.