Bátarnir sex á útisvæði Safnahússins á Húsavík

Ágætu íbúar Þingeyjarsýslna.

Bátar í safnkosti Sjóminjasafns Þingeyinga, undir rekstri Menningarmiðstöðvar Þingeyinga (MMÞ), eru þrettán talsins. Sjö þeirra eru hýstir innandyra á sýningu Sjóminjasafnsins til áframhaldandi varðveislu og teljast allir heilir, en sex þeirra standa á útisvæði stofnunarinnar við Safnahúsið á Húsavík og eru í dag í svo slæmu ásigkomulagi að þeir teljast ónýtir og eru þar að auki hættulegir bæði umhverfi og gestum safnsins.

Samkvæmt úttekt frá árinu 2019 og Bátaskrá Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, skýrsla nr. 18 – fornbátaskrá https://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/18-Menningarmidstod-Thingeyinga-Husavik.pdf, sem unnin var af Helga Mána Sigurðssyni fyrir Samband Íslenskra Sjóminjasafna, kom skýrt fram að ef bjarga ætti þeim báti sem þá reyndist í skásta ásigkomulaginu skyldi hann strax inn í hús til viðhalds. Ekki reyndist möguleiki á því fyrir fimm árum síðan og standa allir bátarnir sex enn þá á útisvæðinu, enn verr farnir en áður, svo svæðið hefur verið lokað gestum síðastliðin ár vegna hættu sem stafar af þeim í niðurbrotsferlinu.

Bátarnir sex á útisvæðinu teljast allir ónýtir (skv. mati í skýrslunni frá 2019 og einnig skv. nýlegu endurmati bátasmiðs frá 2023) og hefur MMÞ hvorki haft fjármagn, mannafla né aðstöðu til að hýsa þá innandyra, né möguleika til viðgerða eða endurbygginga í áranna rás.

          

Forstöðumaður MMÞ sendi því formlega beiðni til þjóðminjavarðar í september 2023 vegna grisjunar á bátunum sex úr safneigninni og förgunar þeirra í framhaldinu en fer hann með ákvörðunarvald vegna þessa í málaflokknum. Bátarnir sem um ræðir eru BJARKI ÞH-271 - opinn vélbátur, FARSÆLL ÞH (TH-10?) - opinn vélbátur, HELGI ÞH-94 - opinn vélbátur, SÆÞÓR TH-56 - opinn vélbátur / trilla, STEINGRÍMUR EA-644 - opinn vélbátur / trilla og ÞRÁINN ÞH-2 - opinn vélbátur / fiskibátur.
Ástæður grisjunarinnar voru tilgreindar þessar:
a) Ófullnægjandi geymsla og lélegur aðbúnaðar til lengri tíma hefur gert það að verkum að bátarnir teljast ónýtir í dag skv. mati fagaðila.
b) Ekki hefur reynst möguleiki á að geyma fleiri báta innandyra á safninu sökum plássleysis (sem er það eina sem taldist mögulegt til hugsanlegrar björgunar eins þeirra árið 2019).
c) Ekki hefur verið geta, kunnátta / þekking eða fjárhagslegur möguleiki hjá safninu til þess að vinna að endursmíði eða endurgerð bátanna.
d) Bátarnir eru hættulegir gestum sökum stærðar þeirra í því niðurbrotsferli sem þeir eru í núna og því hefur útisvæðið verið lokað gestum síðustu árin.
e) Bátarnir eru skaðlegir umhverfinu þar sem þeir standa og brotna niður og skilja ýmis óæskileg efni út í náttúruna.
f) Að lokum er dýrmætt útisvæði safnsins, u.þ.b. 600 m2 að stærð, ónýtanlegt á meðan bátarnir standa þar og gestum er óheimilaður aðgangur. Þetta rýrir pláss og möguleika til frekari sýninga og viðburða í Safnahúsinu á Húsavík.

Hefur stofnuninni nú borist jákvætt svar frá Þjóðminjaverði við beiðninni, ásamt jákvæðri álitsgjöf safnaráðs á verkinu auk fleiri álitsgjafa. Þess skal geta að áður en beiðni var inn send voru tveir bátanna, þeir sem þóttu í skásta ásigkomulagi þrátt fyrir að teljast ónýtir, boðnir öðrum til eignar en ekki kærðu viðkomandi safn og fjölskylda sig um ónýtan safnkostinn.

Forstöðumaður og stjórn MMÞ, sem annast rekstur Sjóminjasafns Þingeyinga, telja brýnt að fjarlægja bátana á útisvæðinu sem allra fyrst vegna áður upptalinna þátta og að farga þeim á réttan hátt með aðstoð fagaðila. Hafa samningar þegar verið gerðir við verktaka og aðila er sjá um eyðingu efna þar um. Mun verkið fara fram á næstu vikum og von er til þess að það klárist fyrir sumarið.

Með fyrirhuguðum breytingum á Sjóminjasafninu seinni part árs,
sem til fékkst styrkur frá safnaráði, mun loksins verða mögulegt að tengja það aftur stóru og sólríku útisvæðinu sem hefur ekki nýst gestum Safnahússins sem skildi undanfarin ár og gefur ýmsa spennandi kosti til framtíðarnýtingar.

Að lokum er það ósk okkar að stofnuninni og starfsfólki hennar beri gæfa til að annast áfram rétt og vel þær menningarminjar og muni sem henni hefur verið falið að varðveita hingað til, sem og að meta möguleika á varðveislu þeirra sem í framtíðinni munu berast, svo sagan skili sér áfram sem best til komandi kynslóða.

Hér að neðan er slóð inn á nákvæm þrívíddarlíkön bátanna sem um ræðir (3D ljósmyndun) og var fyrsta verk í grisjunaráætlun þeirra árið 2021. Með þessu móti varðveitist vitneskja um hönnun þeirra og handverk.
https://sketchfab.com/Punktasky/collections/sjominjasafn-a-husavik-907d580e849c4dd2a1b37e233976f903?fbclid=IwAR1K57on7-vfdELpE7pEA5eFqToUMRSxfYy4kT3cTBtZe7nLwp4X--uA3vo

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks MMÞ
Sigríður Örvarsdóttir
safnstýra