Ljósmyndasafn Ragnheiðar Bjarnadóttur

Ljósmyndasafn Þingeyinga geymir ljósmyndasafn Ragnheiðar Bjarnadóttur. Safnið var afhent í mars árið 2008 og samanstendur af 6 ljósmyndaalbúmum með samtals 2.059 ljósmyndum. Ragnheiður fæddist á Húsavík 20. desember 1912 og hún lést á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund á aðfangadagskvöld 2012, 100 ára að aldri.
Foreldrar Ragnheiðar voru Þórdís Ásgeirsdóttir, húsfreyja og hótelstjóri, og Bjarni Benediktsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Húsavík. Þau eignuðust 15 börn og komust 13 til fullorðinsára.
Ragnheiður var í barnaskóla á Húsavík, stundaði nám í ljósmyndun hjá Eðvarði Sigurgeirssyni, ljósmyndara á Akureyri, og fór til Kaupmannahafnar þar sem hún starfaði á saumastofu í eitt ár. Eftir að hún kom aftur heim, skömmu fyrir stríð, var hún búsett í Reykjavík og starfaði þá hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ragnheiður tók ökupróf er hún hafði aldur til, fyrst kvenna í Þingeyjarsýslu, og vann um skeið við fyrirtæki föður síns, Verslun Bjarna Benediktssonar á Húsavík. Eftir að Ragnheiður gifti sig var hún húsfreyja á Akureyri og þar búsett til ársloka 1992 er hún flutti til Reykjavíkur. Ragnheiður var mikil hannyrðakona og liggja eftir hana skírnarkjólar, barnaflíkur, altarisdúkar, jóladúkar, veggmyndir og sængurver svo eitthvað sé nefnt. Þessir listmunir voru oft sýndir opinberlega.
Ragnheiður giftist árið 1942 Arthur Guðmundssyni, innkaupastjóra KEA, en hann lést 1982. Börn Ragnheiðar og Arthurs eru Guðmundur Garðar, Bjarni Benedikt og Þórdís Guðrún, sem öll lifa móður sína.
|