Forsíða
Fréttir
Fimmtudagur, 07. desember 2017 15:10

Árbók Þingeyinga 2016

Árbók Þingeyinga 2016Árbók Þingeyinga 2016 er komin og er eins og ávallt full af skemmtilegu efni frá Þingeyingum og um Þingeyinga. Þar má í ár m.a. finna greinar um Látra-Björgu, hvalasögu, mjólkurflutninga í Hálshreppi, för í Herðubreiðarlindir 1938 og margt margt fleira.

Fullkomin jólagjöf fyrir Þingeyinga og aðra áhugasama um sögu og menningu héraðsins.

Bókin kostar 4.500 kr. Hana er hægt að kaupa í Safnahúsinu á Húsavík eða panta í síma 464-1860 og fá hana senda.

 
Föstudagur, 01. desember 2017 00:00

Þingeyskar gjörðabækur á veraldarvefnum

Á vormánuðum 2017 hlaut Héraðsskjalasafn Þingeyinga styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands til að ljósmynda elstu gjörðabækur hreppa á starfssvæði sínu. Einnig hlaut Héraðsskjalasafn Þingeyinga ásamt Héraðsskjalasafninu á Akureyri og Héraðsskjalasafni Árnesinga styrk til að miðla skjölum á veraldarvefnum.

Síðustu mánuði hefur verið unnið við að afrita gjörðabækurnar. Héraðsskjalavörður stýrði verkinu en um ljósmyndun sá Sigurður Narfi Rúnarsson. Samtals voru 35 gjörðabækur afritaðar frá 13 hreppum í Þingeyjarsýslu, samtals tæplega 12 þúsund blaðsíður. Samhliða var unnið að þróun vefsíðu til að miðla skjölunum.

Skjalavefur Héraðsskjalasafns Þingeyinga

- Smelltu á myndina til að opna skjalavefinn -

Í dag er opnaður nýr vefur á vefsetri Menningarmiðstöðvar Þingeyinga sem er sérstaklega ætlaður til að birta skjöl. Á sama tíma birta Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafnið á Akureyri sínar gjörðabækur á sama hátt. Í hreppabækur er skráð afar áhugaverð saga byggðanna, þær eru meðal þeirra gagna sem notendur skjalasafna hafa mestan áhuga á að skoða. Þar má finna upplýsingar um þróun byggðar, búsetu, kaup og sölu jarða og svo mætti lengi telja. Með þessu verkefni er stígið mikilvægt skref í þá átt að safnkostur héraðsskjalasafna verði aðgengilegur á þennan hátt. Þá geta fræðimenn, stjórnsýslan og almenningur skoðað og rannsakað gögn óháð búsetu og opnunartíma safnanna.

 
Fimmtudagur, 30. nóvember 2017 14:46

Þetta vilja börnin sjá!

Sýning á myndskreytingum 24 íslenskra myndskreyta í 33 bókum sem komu út á árinu 2016.

Safnahúsinu á Húsavík 1. desember 2017 – 13. janúar 2018

 

Þetta vilja börnin sjá!

Á jarðhæð Safnahússins verður sýningin „Þetta vilja börnin sjá!“ opnuð föstudaginn 1. desember nk.  Sérstakir gestir opnunarinnar verða nemendur 2. og 3. bekkjar Borgarhólsskóla sem mæta snemma dags ásamt fylgdarliði. Á sýningunni gefur að líta myndskreytingar 24 íslenskra myndlistarmanna við samtals 33 barnabækur sem komu út á árinu 2016, ásamt bókunum sjálfum. Myndir sýnenda eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og gefur að líta verk bæði gamalreyndra teiknara sem fyrir löngu eru vel þekktir í heimi íslenskra barnabókmennta, sem og glæný verk myndhöfunda sem nú sýna í fyrsta sinn. Þarfir barna eru sérstaklega hafðar í huga við uppsetningu sýningarinnar, enda ljóst að viðfangsefni hennar er ætlað börnum frá byrjun.

Þetta er í 15. sinn sem sýningin Þetta vilja börnin sjá! er haldin á vegum Borgarbókasafnsins – menningarhúss Gerðubergi og vekur hún jafnan verðskuldaða athygli. Sýningin var að venju fyrst sett upp í Gerðubergi, en hefur síðan verið á ferðalagi um landið. Eins og oft áður endar hún ferðalagið hjá okkur í Safnahúsinu og við fáum að njóta hennar í jólamánuðinum og fram á nýtt ár.

Sýningin verður opin á opnunartíma bókasafnsins, sérstaklega er minnt á laugardagsopnun frá 10-14.

Enginn aðgangseyrir er að sýningunni.

 
Miðvikudagur, 18. október 2017 13:10

Baðstofustundir

Menningarmiðstöð Þingeyinga hefur frá því í sumar staðið að viðburðadagskrá sem fékk nafnið Baðstofustundir. Það var nokkurs konar afsprengi Baðstofukvölda sem haldinn voru á síðasta ári. Baðstofustundirnar eru tónlistarviðburðir með þjóðlegum blæ þar sem notalegheit og samvera ræður ríkjum.  Í upphafi var ákveðið að halda hvern viðburð tvisvar sinnum, einu sinni í hvorri hinna gömlu sýslna norður og suður. Þórarinn Hjartarson reið á vaðið á Grenjaðarstað með dagskrá sinni Lög tímanna – óskalög frá Íslands þúsund árum. Fanney Snjólaugar Kristjánsdóttir og Helga Kvam voru því næst með dagskrá á Grenjaðarstað og á Snartarstöðum Þjóðlög með Fanneyju og Helgu. Þá var komið að nokkru stílbroti því kvæðamennirnir Gústaf og Örlygur kváðu rímur á Snartarstöðum og í Sauðaneshúsi. En eins og glöggir átta sig á eru þeir staðir báðir í Norðursýslunni hinni fornu. Enda stendur til að þeir félagar heimsæki suðurhlutann snemmvetrar. Vandræðaskáld – vega fólk stigu næst á stokk, fyrst á Raufarhöfn og var sá viðburður samstarf afmælishátíðar Hnitbjarga og Menningarmiðstöðvarinnar og síðan í Safnahúsinu á Húsavík. Á næstu viku verða haldnir 3 viðburðir og fer þá að líða að lokum þessarar skemmtilegu dagskrár. Fyrsta vetrardag flytur Þórarinn Hjartarson sína þjóðlegu dagskrá í Sauðaneshúsi kl. 21.

 

Heilsutríóið

 

Lokahnykkurinn í bili verða síðan tónleikar Heilsutríósins Þjóðlög þá og nú, hinir fyrri verða í Skjálftasetrinu á Kópaskeri þriðjudagskvöldið 24. október kl. 20:30 og seinni í Safnahúsinu á Húsavík miðvikudagskvöldið 25. október kl. 20:30. Miðaverði hefur verið stillt í hóf  en einungis kostar 1000 kr inn á þá viðburði sem framundan eru. Við vonum að sem flestir fái notið þessara góðu stunda.

 
«FyrstaFyrri11121314151617181920NæstaSíðasta»

Síða 13 af 67
 
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing